Ávarp stjórnarformanns

 


Undanfarið hefur verið mikil óvissa vegna kórónaveirunnar sem skekur heimsbyggðina. Áhrif veirunnar á alþjóðaviðskipti sem og hagkerfið okkar Íslendinga eru ekki ljós. Við erum þó tilbúin að takast á við þessar áskoranir því fjárhagur félagsins er sterkur og reksturinn er á traustum grunni.

 

Árið 2019 var mjög gott ár, eitt besta rekstrarár í sögu VÍS. Við náðum góðum árangri á öllum sviðum rekstrarins. Arðsemi eigin fjár var 17,2% og er sú besta frá skráningu félagsins.

 

 

Stefnan sem leiðarljós


Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnar er vinna að skýrri stefnu og fylgja henni eftir. Stefnan þarf að vera skýr og nýtt sem leiðarljós fyrir allar ákvarðanir sem teknar eru hjá félaginu. Framtíðarsýnin er að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki sem nýtir framúrskarandi stafrænar lausnir til að þekkja viðskiptavini sína, veita þeim einfalda og aðgengilega þjónustu þegar þeim hentar. Jafnframt veita þeim viðeigandi vernd þannig að þeir séu rétt tryggðir. Framtíðarsýnin er skýr og samhentur hópur starfsmanna félagsins vinnur ötullega að því að umbreyta hefðbundnu tryggingafélagi í stafrænt þjónustufyrirtæki. Við viljum vera leiðandi á tryggingamarkaði enda búum við að 100 ára reynslu í tryggingarekstri. Við erum undirbúin fyrir nýja og breytta tíma. Við ætlum að nýta tækifærin og nýja tækni sem framtíðin hefur í för með sér.

 

Árið 2019 einkenndist af stafrænni vegferð félagsins. Viðskiptavinurinn er alltaf í forgrunni og við viljum að viðskiptavinir geti leitað til okkar þegar þeim hentar.

 

 

Gildin eru áttaviti félagsins


Gildi VÍS eru umhyggja, fagmennska og árangur. Gildin eru áttaviti félagsins þegar unnið er að framkvæmd á stefnu þess. Stjórn yfirfór og staðfesti siðasáttmála félagsins í maí 2019. Siðasáttmáli VÍS byggir á hugmyndum starfsmanna félagsins um hvernig þeim beri að haga störfum sínum og lýsir þannig viðhorfum þeirra og væntingum um gæði starfseminnar. Gildi VÍS voru notuð við gerð sáttmálans sem lýsa því sambandi sem stjórn og starfsmenn vilja eiga við viðskiptavini, samstarfsmenn, hluthafa, eftirlitsstofnanir, samfélagið okkar og samkeppnisaðila.

 

 

Góðir stjórnarhættir mikilvægir


Frá árinu 2014 hefur félagið fengið viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands. Með viðurkenningunni eru gæði stjórnarhátta félagsins staðfest af óháðum utanaðkomandi aðilum. Viðurkenningin rann út á árinu 2018 og var ekki endurnýjuð á árinu 2019, þar sem ákveðið var að leita til reyndra erlendra sérfræðinga á sviði stjórnarhátta til þess að veita félaginu dýpri ráðgjöf um tiltekna þætti í stjórnarháttum félagsins, með það fyrir augum að auka gæði þeirra. verið afla á nývottunar sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum sem gefin er út af Stjórnvísi.

 

Við leggjum mikla áherslu á góða stjórnarhætti en stjórnarhættir félagsins snúast um að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnar og stjórnenda félagsins. Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og vandaðri ákvarðanatöku og stuðla að traustum samskiptum á milli hluthafa, stjórnar, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila. Ítarlega er gerð grein fyrir stjórnarháttum félagsins í stjórnarháttayfirlýsingu sem fylgir ársskýrslunni.

 

 

Skýrleiki og gagnsæi


Á liðnum árum hefur stjórn félagsins lagt mikla áherslu á að endurskoða og bæta stjórnkerfi félagsins. Í því samhengi var lagt í viðamikla umbótavinnu sem var unnin í nánu samstarfi við yfirlögfræðing og forstöðumann áhættustýringar, og eftir ábendingum frá innri endurskoðanda. Stjórnkerfið uppfyllir ströngustu kröfur laga um skýrleika og gagnsæi, og markmiðið er að kerfið þjóni félaginu með því að skýra skipulag og tilgang stjórnkerfisins, skýra eignarhald, ábyrgð og ákvörðunaraðila í einstökum verkefnum.

 

 

Samfélagið tekur hröðum breytingum


Á árinu 2019 var skipurit VÍS einfaldað með fækkun framkvæmdastjóra úr fjórum í þrjá. Með þessu var skipulagið einfaldað og boðleiðir styttar. Verkefnið er að auka samkeppnishæfni félagsins og gera það betur í stakk búið til þess að taka á viðskiptaumhverfi morgundagsins. Samfélagið tekur hröðum breytingum og þjónustufyrirtæki eins og VÍS þurfa að breytast með. Þær skipulagsbreytingar sem hafa átt sér stað undanfarin misseri hafa styrkt okkur enn frekar. Við erum svo lánsöm að búa yfir framúrskarandi mannauði sem er tilbúinn að gera gott félag enn betra.

 

Samfélagið tekur hröðum breytingum og við viljum þróast í takt við það. Við verðum að vera vel búin í allar þær samfélagsbreytingar og tækniþróanir sem framundan eru.

 

 

Umbun fyrir góðan árangur


Á aðalfundi félagsins 2019 var samþykkt að útvíkka kaupaukakerfi félagsins þannig að það næði til allra starfsmanna en ekki eingöngu æðstu stjórnenda félagsins. Kaupaukakerfi ársins 2019 var skipt upp í tvö þrep. Fyrra þrepið er ætlað forstjóra, framkvæmdastjórn og forstöðumanni fjárfestinga. Þetta eru stjórnendur sem hafa veruleg áhrif á stefnumótandi og fjárhagsleg markmið félagsins til lengri tíma. Seinna þrepið er ætlað öðrum starfsmönnum félagsins. Þetta er umbun fyrir góðan rekstur og faglega vinnu sem styður við heildarhagsmuni félagsins.

 

Tilgangur kaupaukakerfis VÍS er að tengja saman hagsmuni hluthafa og starfsmanna til lengri tíma. Einnig að styðja við fjárhagsleg og stefnumarkandi markmið í rekstri félagsins. Ég tel það vera farsælt skref að tengja hugsmuni hluthafa og starfsmanna með þessum hætti. Með sameiginlega framtíðarsýn horfum við bjartsýn til framtíðar.

 

 

Áskoranir í rekstrinum


Vaxtastig hefur verið á óþekktum slóðum sem hefur för með sér miklar áskoranir í að ávaxta sjóði félagsins. Áherslan undanfarið ár hefur verið á að aðlaga eignasafnið að því og skoða nýja fjárfestingakosti.

 

Mörkin milli fjármálafyrirtækja, fjártæknifyrirtækja og tryggingafélaga eru sífellt að breytast. Fjölmörg tækifæri felast í því fyrir okkur með því að útvíkka þjónustuna við viðskiptavini okkar og þróa félagið okkar í takt við breytta tíma og ný tækifæri. Við þurfum að fylgjast vel með alþjóðlegri þróun, hlusta á viðskiptavini okkar og vera fljót að bregðast við.

 

Framundan eru því krefjandi en spennandi tímar. Við erum vel undir þá búin.

 

 

Mikilvægt hlutverk í samfélaginu


Vátryggingar spila gífurlega mikilvægt hlutverk í samfélaginu. Hlutverk okkar er að vera traustur bakhjarl í óvissu lífsins. Á bak við hvert einasta tjón eru einstaklingar sem treysta á okkur. Við greiddum viðskiptavinum okkar 17 milljarða í tjónabætur á síðasta ári. Við tökum hlutverki okkar í samfélaginu alvarlega og því er mikilvægt að reksturinn sé traustur og fjárhagurinn góður.

 

Við sinnum einnig mikilvægu forvarnarstarfi í samfélaginu. Við þurfum öll að taka höndum saman til þess að fækka slysum og tjónum. Á hverju ári eru alltof mörg slys sem mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Á bakvið hvert einasta slys eru einstaklingar og fjölskyldur. Á bakvið allar tölur og tölfræði eru einstaklingar sem líða fyrir eignatjón eða vinnuslys. Við gegnum mikilvægu hlutverki í því að fækka slysum í íslensku samfélagi en við þurfum öll að vinna að því að svo megi verða.

 

Á undanförnum tveimur árum hafa verið óvenju mörg stór brunatjón í íslensku samfélagi. Þessir brunar hafa í för með sér gríðarlegt fjárhagslegt tjón fyrir eigendurna sem og samfélagið allt. Þess vegna er mikilvægt að við tökum höndum saman og komum í veg fyrir tjón og slys. Með öflugu forvarnastarfi tekst okkur það.

 

 

Vinnum sigra


Við höfum átt sérlega gott samstarf með stjórnendum og starfsmönnum félagsins. Fyrir það erum við þakklát. Þetta er samhentur hópur starfsmanna með skýr markmið og það er grunnurinn að góðum árangri. Við höldum vegferðinni áfram því framundan eru fjölbreytt tækifæri sem við verðum að grípa.

 

Afkoma ársins er mikið ánægjuefni. Fyrir fyrir hönd stjórnar félagsins vil ég þakka stjórnendum, starfsfólki, viðskiptavinum og hluthöfum fyrir einstaklega gott starf, góð samskipti og góðan stuðning á árinu.

 

Þrátt fyrir óvissuna sem nú ríkir í heimsbyggðinni vegna kórónaveirunnar þá höldum við ótrauð áfram.

 

Við höldum áfram að vinna sigra og gera enn betur.

 

 

Valdimar Svavarsson,
stjórnarformaður

 

Fyrri síða
Framkvæmdastjórn
Næsta síða
Ávarp forstjóra