Ávarp forstjóra

 

Við getum verið ákaflega stolt af árinu 2019. Afkoma ársins er sú besta frá skráningu félagsins þar sem arðsemi eigin fjár er 17,2%. Tryggingareksturinn var ásættanlegur en litaðist af stórum tjónum, annað árið í röð, auk þess sem mikil lækkun vaxta hafði neikvæð áhrif.

 

Þá héldum við áfram að taka stór skref í átt að framtíðarsýninni með yfirfærslu viðskiptavina í eitt kerfi og útgáfu stafrænna lausna sem hefur verið gríðarlega vel tekið af viðskiptavinum okkar. Á síðasta ári greiddum við viðskiptavinum um 17 milljarða króna í tjónabætur en það er einmitt hlutverk okkar, að vera traust bakland í óvissu lífsins.

 

 

Niðurstaðan er sú, að 2019 er eitt besta rekstrarár í sögu VÍS.

 

En aðstæður geta breyst hratt og þegar þetta er skrifað er mikil óvissa í íslensku samfélagi.  Kórónaveiran hefur dreifst um heimsbyggðina á miklum hraða. Við vitum ekki hver áhrifin verða til lengri eðaskemmri tíma. En við erum vel í stakk búin til þess að takast á við óvæntar áskoranir á borð við þessa. Fjárhagurinn er sterkur og reksturinn traustur. 

 

 

Góð afkoma fjárfestinga

 

Ávöxtun fjáreigna var 10,3% og er ein sú besta frá skráningu félagsins. Niðurstaðan er sérstaklega ánægjuleg í ljósi þess, að félagið hefur markvisst  dregið úr áhættu eignasafnsins,  t.d. með því að minnka stórar eignastöður og auka dreifingu eignasafnsins. Með betri nýting markaðsáhættu hefur okkur tekist að lækka eiginfjárhlutfallið sem aftur hefur aukið arðsemi eigin fjár. 

 

 

Stafræna vegferðin á fullri ferð


Við erum á tímum mikilla breytinga og því er mikilvægt að hafa skýra sýn og stefnu. Framtíðarsýn VÍS er að verða stafrænt þjónustufyrirtæki sem nýtir framúrskarandi stafrænar lausnir til að þekkja viðskiptavini sína, veita þeim einfalda og aðgengilega þjónustu allan sólarhringinn og viðeigandi vernd þannig að þeir séu rétt tryggðir. Framtíðarsýnin er nú leiðarvísir í öllum ákvörðunum sem teknar eru hjá félaginu og hefur markvisst verið unnið að stafrænum lausnum í allri þjónustu félagsins. Umbreytingin á hefðbundnu tryggingafélagi í stafrænt þjónustufyrirtæki er á fullri ferð með skýrum markmiðum til framtíðar. 

 

Í takt við markmiðin, höfum við reglulega kynnt nýjar stafrænar lausnir fyrir þjónustu félagsins. 

 

Nú geta viðskiptavinir okkar til dæmis tilkynnt tjón, farið yfir tryggingarnar, breytt greiðsluleið svo eitthvað sé nefnt á þjónustugáttinni á vis.is. Frá upphafi höfum við borið hönnun og virkni lausnanna undir viðskiptavini okkar til þess að sannreyna hvort stafrænu lausnirnar svari þörfum þeirra. Viðskiptavinir okkar hafa svo sannarlega tekið vel á móti nýrri stafrænni þjónustu, til að mynda var tæplega 100% aukning á innskráningum milli ára á þjónustugáttinni. Aukningin var 102% hjá einstaklingum og 64% hjá fyrirtækjum.

 

Á árinu 2019 kláruðum við yfirfærslu allra viðskiptavina í eitt kerfi. Þetta er stórt skref fyrir félagið því öll þróun er mun einfaldari í einu kerfi. Nú í upphafi árs 2020, kynnum við nýja lausn sem gerir okkur kleift að afgreiða um um fjórðung tilkynntra tjóna algjörlega sjálfvirkt.

 

 

Ánægðir starfsmenn


Að umbreyta 100 ára hefðbundnu tryggingafélagi í stafrænt þjónustufyrirtæki felur í sér umfangsmiklar áskoranir, sér í lagi fyrir starfsfólk. Lykillinn að árangri felst nefnilega í kraftmiklu og ánægðu starfsfólki sem þróast í takti við nýja tíma og getur tekist á við áskoranir framtíðarinnar. Því var afar ánægjulegt að sjá að ánægja og stolt starfsfólks hjá VÍS hafi aukist til muna, enda er samhentur hópur starfsmanna með skýr markmið lykilatriði í því að umbreytingin sé farsæl.


Í mörg ár hefur Gallup framkvæmt vinnustaðagreiningu fyrir félagið. Meðal þess sem er mælt, er helgun starfsmanna. Helgað starfsfólk vinnur af ástríðu, er virkt, áhugasamt, tilfinningalega tengt vinnustaðnum og leggur sig fram í starfi sínu á hverjum degi. Helgun starfsmanna mælist nú 4,42 af 5 mögulegum og hefur aldrei mælst hærri. Helgunin mældist 4,13 árin 2017 og 2018. Þetta er því mikil framför milli ára.


Þessi niðurstaða fyllir okkur því stolti og staðfestir að við erum á réttri leið til móts við nýja tíma. Þróunin verður einungis hraðari og hraðari með hverju árinu. Við vinnum því stöðugt að því að innleiða menningu þar sem við erum snörp og skörp, fljót að aðlagast og góð í að breytast.

 

 

Sameiginlegir hagsmunir hluthafa og starfsfólks

 

Á aðalfundi félagsins 2019 var samþykkt kaupaukakerfi sem nær til allra starfsmanna. Tilgangur kaupaukakerfisins er að tengja saman hagsmuni hluthafa og starfsfólks til lengri tíma og deila þar með góðum árangri. Mælikvarðar og markmið kerfisins eru skýr og styðja við fjárhagsleg markmið og helstu áherslur í stefnu félagsins. Þannig að allt starfsfólk félagsins gangi í takti til móts við nýja tíma.

 

Ég fagna því þessari ákvörðun hluthafa að deila góðum árangri með starfsfólki með skýrum hætti og styðja þannig við áherslur félagsins. Því án starfsfólks er stafrænt þjónustufyrirtæki einungis hugmynd á blaði.

 

 

Fjölskylduvænn vinnustaður


Við vorum skrefi á undan þegar við styttum vinnuviku starfsmanna 1. nóvember 2019.  Starfsfólk hættir nú 45 mínútum fyrr í vinnunni á föstudögum. Um var að ræða viðbrögð við kjarasamningum VR um styttingu vinnuvikunnar frá 1. janúar 2020 um níu mínútur á dag án skerðingar launa. Breytingarnar hjá VÍS tóku því gildi tveimur mánuðum fyrr eða 1. nóvember. Stytting vinnuvikunnar stuðlar að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs.  Við berum hag starfsfólks okkar fyrir brjósti og viljum sýna umhyggju í verki. Við leggjum ríka áherslu á að VÍS sé góður og fjölskylduvænn vinnustaður.

 

 

Vörumerkjarýni VÍS


Á árinu 2019 höfum við unnið að því að skilgreina vörumerkið okkar. Umbreytingin á hefðbundnu tryggingafélagi í stafrænt þjónustufyrirtæki kallar á naflaskoðun. Við þurfum því að brýna okkur fyrir framtíðina og skerpa á sérstöðu okkar. Umfangsmikil rýni átti sér stað á árinu og rætt var við stjórn og starfsfólk og viðskiptavini félagsins um allt land. Samstarfsaðilar voru Friðrik Larsen hjá Brandr og bandaríski fræðimaðurinn Kevin Keller, sem margir líta á sem föður markaðsfræðinnar. Þessi vinna leiddi af sér vel skilgreint vörumerki. Vinnustofur voru haldnar fyrir starfsfólk félagsins þar sem vörumerkjarýnin var rækilega kynnt. Yfir 80% af starfsfólki félagsins tóku þátt í vinnustofunum og var framleg þeirra ómetanlegt.


Þessi vinna leiddi af sér nýjar áherslur í markaðsstarfi félagsins sem unnið verður með á árinu og styður vegferð okkar til framtíðar. Því eru spennandi tímar framundan í markaðsstarfi félagsins.

 

 

Sjálfbærni til framtíðar

 

Ég fagna því að samfélagsábyrgð og sjálfbærni fái sífellt aukið vægi í samfélaginu. Miklu máli skiptir að allir leggi sitt af mörkum í sjálfbærni, ekki síst atvinnulífið. Viðskiptavinir, fjárfestar og starfsmenn kalla á ábyrga hegðun. Samkeppnishæfni fyrirtækja í nútímasamfélagi veltur meðal annars á því hversu sjálfbær og samfélagslega ábyrg þau eru. Sjálfbærni getur því skapað sérstöðu á markaði og þar ætlum við að vera í broddi fylkingar.

 

Umfangsmikið starf átti sér stað á árinu þegar stefna í sjálfbærni var mótuð. Stjórn félagsins samþykkti svo stefnuna í byrjun árs 2020. Stefna um sjálfbærni gefur til kynna áherslur fyrirtækisins í málaflokkum sem eru viðeigandi fyrir starfsemi tryggingafélaga, til dæmis einsetur félagið sér að greina þá áhættu sem lýtur að loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á starfsemi sína. Þetta er mikilvægt skref.

 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem eru 17 talsins, eru metnaðarfull og krefjast þátttöku alls samfélagsins, ekki síst fyrirtækja. Við styðjum sérstaklega eftirfarandi heimsmarkmið:

 

  • Heimsmarkmið 3: Heilsa og vellíðan.
  • Heimsmarkmið 5: Jafnrétti kynjanna.
  • Heimsmarkmið 9: Nýsköpun og uppbygging.
  • Heimsmarkmið 12: Ábyrg neysla og framleiðsla.

 

Í nýju sjálfbærnistefnu félagsins eru félagslegir þættir veigamiklir, enda liggja helstu áhrif VÍS þar. Félagið hefur þar sett sér skýra mannréttindastefnu. Við líðum hvorki mannréttindabrot innan fyrirtækisins né hjá samstarfsaðilum okkar.


Fjárfestar gera sívaxandi kröfur um sjálfbærni fyrirtækja og beina þar kastljósinu á hvaða áhrif reksturinn hefur á umhverfið. Við fögnum þessari þróun því skilvirkur fjármálamarkaður er eitt öflugasta hreyfiafl breytinga í samfélaginu. Skýr og áreiðanleg upplýsingagjöf um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) er því mikilvæg. Félagið hefur lagt línur varðandi ábyrgar fjárfestingar þar sem litið er til UFS þátta við fjárfestingaákvarðanir.


Við gefum út sjálfbærniskýrsla árlega, samhliða ársskýrslu, í samræmi við alþjóðleg viðmið.

 


Viðskiptavinir lendi sjaldnar í tjónum


Við erum hreyfiafl í íslensku samfélagi. Við erum að hjálpa viðskiptavinum okkar að lenda sjaldnar í tjónum. Við trúum því að með markvissri fræðslu, samtali og samstarfi við viðskiptavini okkar um forvarnir muni það takast. Komum í veg fyrir slysin með ábyrgri hegðun í okkar daglega lífi.


Við leggjum mikið upp úr slíkum samtölum við viðskiptavini okkar. Við deilum fræðslu um forvarnir og forvarnarfulltrúar vinna náið með og ráðleggja viðskiptavinum okkar. Við leggjum því mikla áherslu á forvarnir, hjá fyrirtækjum og einstaklingum.


Við trúum því að með samstilltu átaki muni okkur takast að fækka slysum og stuðla að öruggara samfélagi. Þess ber að geta að forvarnarfulltrúar VÍS fóru í 263 forvarnarheimsóknar til fyrirtækja á árinu, þar sem rætt var um öryggismál starfsmanna, brunavarnir og innbrotsvarnir.


Til þess að fyrirtæki og stofnanir geti stuðlað að markvissu og sértæku forvarnarstarfi þarf að greina vandann. Mikilvægt er að fá yfirsýn yfir slysin: Hvernig slys eru þetta, hversu oft gerast þau og hversu alvarleg eru þau? Hvar eru „næstum slys“? En það er ekki nóg að hafa yfirsýn, heldur þarf að vinna úr upplýsingunum og ganga í úrbætur til að fyrirbyggja slys. Þetta er tilgangur ATVIKS, kerfis sem við höfum þróað síðustu 5 árin í samvinnu við fyrirtæki og sveitarfélög.


Árangurinn af notkun ATVIKS er sýnilegur og gerir okkur stolt og við eigum mörg dæmi þar sem notendur hafa með markvissum skráningum og úrvinnslu tekist að fækka slysum. Kerfið gefur viðskiptavinum kleift að hafa yfirsýn yfir öryggismálin og fara í markvissar umbætur til að koma í veg fyrir slys í framtíðinni. 36 fyrirtæki og sveitarfélög nota ATVIK og 16.000 starfsmenn hafa aðgang að kerfinu. 38 skip hafa aðgang að ATVIK – sjómenn og 832 sjómenn hafa aðgang að kerfinu.


Öruggara umhverfi skapar einfaldlega betra samfélag. Við viljum leiðbeina viðskiptavinum þannig að slysum og tjónum fækki. 
Forvarnaráðstefna VÍS er haldin árlega, og árið 2019 var engin undantekning. Þar er fjallað um öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana frá öllum hliðum. Þar deila sérfræðingar og stjórnendur reynslu sinni með ráðstefnugestum. Ráðstefnan var fyrst haldin árið 2010 og hefur skapað sér sess sem fjölsóttasti viðburður sinnar tegundar á Íslandi. Þar hafa 77 erindi verið haldin á 10 árum og 2.755 manns hafa sótt ráðstefnurnar.


Á forvarnaráðstefnunni eru veitt forvarnaverðlaun VÍS en verðlaunin hlýtur það fyrirtæki sem þykir skara fram úr í öryggismálum og er öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd. Árið 2019 hlaut ÍSAGA verðlaunin. Öll starfsemi og verkferlar einkennast af mikilli öryggisvitund starfsmanna sem endurspeglast svo í öflugri öryggismenningu. Vel gert, ÍSAGA.

 

 

Við hlustum

 

Öllu máli skiptir hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við viljum sífellt bæta upplifun þeirra og ánægju. Þess vegna spyrjum við og mælum reglulega hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við hlustum, því við viljum alltaf gera betur. Í síauknum mæli leggjum við áherslu á að veita þjónustu með stafrænum lausnum þannig að viðskiptavinir okkar geti nýtt sér þjónustu okkar allan sólarhringinn, þegar þeim hentar. Þarfir viðskiptavinarins er leiðarljósið í öllu okkar starfi.

 

Tryggingamarkaðurinn er með lægstu einkunnina í Ánægjuvoginni sem er alls ekki ásættanlegt. Því ætlum við að breyta.

 

 

Að lokum

Árið 2019 var gott ár. Arðsemi eigin fjár sú besta frá skráningu félagsins. Mörg stór skref voru tekin í stafrænu vegferð félagsins, m.a. lukum við yfirfærslu viðskiptavina í eitt kerfi sem er mikilvægur grunnur að svo mörgu. Stafræna vegferðin er fjárfesting í umbreytingu félagsins og byggir á öflugri liðsheild sem hefur skýra sýn og stefnu. Verkefnið framundan er að taka enn stærri skref til móts við nýja tíma með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa og starfsmanna að leiðarljósi. Við höldum áfram að vera traust bakland í óvissu lífsins.

 

Þrátt fyrir óvissu sem nú ríkir í samfélaginu vegna kórónuveirunnar, COVID-19, þá hef ég fulla trú á því að framundan séu bjartari tímar með spennandi tækifærum.

 

Helgi Bjarnason,
Forstjóri

 

Fyrri síða
Ávarp stjórnaformanns
Næsta síða
Stjórnarháttayfirlýsing