Ófjárhagsleg upplýsingagjöf

Ófjárhagsleg upplýsingagjöf VÍS

Ná í töluleg gögn

Um Vís

VÍS er traust, leiðandi og framsækið þjónustufyrirtæki sem veitir viðskiptavinum viðeigandi vátryggingarvernd og stuðlar að öryggi þeirra með öflugum forvörnum. Með stefnu um sjálfbærni leitast VÍS við að starfsemi þess og þjónusta stuðli með sjálfbærum hætti að sameiginlegum ávinningi fyrir samfélagið, m.a. starfsmenn, viðskiptavini, hluthafa og aðra hagaðila félagsins.

Sjálfbærni er samofin öllum rekstri VÍS. Félagið styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þá sérstaklega heimsmarkmið nr. 3, 5, 9 og 12.

Sjálfbærni fyrirtækisins

Stefna félagsins er að huga að sjálfbærni í hvívetna. Félagið leggur áherslu á þá málaflokka sem það getur haft mest áhrif á og eru viðeigandi og mikilvægir fyrir kjarnastarfsemi þess. Lögð er áhersla á mælanleika málaflokkanna.

VÍS er aðili að Global Compact, alþjóðlegum sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hafður er að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta. Með þátttökunni skuldbindur VÍS sig til þess að vinna að tíu grundvallarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, er varða sjálfbærni og styðja helstu markmið þeirra. VÍS er aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, sem og IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar.

Vísar hér að neðan eru unnir í samræmi við UFS leiðbeiningar Nasdaq og Greenhouse Gas Protocol.
Eins og í öllum rekstri, verður til losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri VÍS. Helstu losunarvaldar í rekstri VÍS er vegna flugferða, ferða starfsfólks og bruna eldsneytis. Þá má áætla að töluverð óbein losun eigi sér stað vegna trygginga og fjárfestinga félagsins og er VÍS meðvitað um það. Í dag er verið að þróa alþjóðlega samræmda aðferðafræði til að meta slíka óbeina losun og mun VÍS fylgjast með þeirri þróun. Losunarkræfni sýnir losun gróðurhúsalofttegunda frá félaginu miðað við helstu stærðir í rekstri VÍS.

Á árinu 2019 dró VÍS úr losun gróðurhúsalofttegunda um 7,4%. Helsta ástæða þess er minni losun vegna ferða starfsfólks í og úr vinnu en starfsfólk losaði um 28% minna af koldíoxíði vegna ferða sinna.

Þegar litið er til losunarkræfni, má sjá að losun á hvern starfsmann hefur lækkað um 4,15% á milli ára. Fækkun þjónustuskrifstofa VÍS á landsbyggðinni sem og minna húsnæði í höfuðstöðvum félagsins leiddi til minni orkunotkunar í rekstrinum. Orkunotkunin minnkaði í heild um 5,2%.
Vatnsnotkun minnkaði einnig til muna í rekstri VÍS. Þessi minnkun er beintengd breyttu fyrirkomulagi húsnæðis í höfuðstöðvum VÍS.

Í byrjun árs 2020 samþykkti stjórn VÍS nýja sjálfbærnistefnu sem gefur til kynna stefnu fyrirtækisins í mörgum málaflokkum. Stefnan er ítarleg og tekur einnig á áhættuþáttum vegna loftslagsbreytinga og hvernig farið er með slíka áhættuþætti innan VÍS.


VÍS hefur fengið staðfesta vottun á jafnlaunakerfi félagsins samkvæmt kröfum ÍST 85. Með innleiðingu á jafnlaunakerfi hefur félagið komið sér upp stjórnkerfi sem á að tryggja að ákvarðanir í launamálum byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Virk jafnréttis- og jafnlaunastefna er til staðar þar sem leiðir að markmiðum félagsins í jafnréttismálum eru skilgreindar. VÍS hefur verið með jafnréttisstefnu frá árinu 2002 og hefur sett sér jafnréttisáætlun.

Engin slys urðu á starfsfólki á árinu 2019, sem er fækkun frá fyrri árum. Hins vegar hafa slysin á fyrri árum verið minniháttar og enginn hefur verið frá vinnu vegna slyss.
VÍS hefur í auknum mæli ráðið til sín nemendur í tímabundin störf. Þessa aukningu má sjá á mynd hér að neðan, enda hefur fjöldi tímabundins starfsfólks tvöfaldast á milli ára.

Í nýrri sjálfbærnistefnu VÍS eru félagslegir þættir veigamiklir, enda liggja helstu áhrif VÍS þar. Félagið hefur þar sett sér skýra stefnu varðandi mannréttindi og barnaþrælkun sem hvorugt líðst innan fyrirtækisins né hjá samstarfsaðilum þess. VÍS hefur einnig sett sér stefnu varðandi samfélagstengsl og hvar megináherslur félagsins þar liggja.


Hjá félaginu er lögð rík áhersla á að þróa og styrkja góða stjórnarhætti. Einnig er lögð rík áhersla á að öll ferli og vinnubrögð samræmist alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum um bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta.

Allir starfsmenn félagsins undirrita siðasáttmála og staðfesta með því ætlun sína að framfylgja honum. Siðasáttmáli félagsins endurspeglar hvernig starfsmenn haga samskiptum sínum við viðskiptavini, samstarfsmenn, eftirlitsstofnanir, hluthafa, samkeppnisaðila sem og samfélagið allt. Með því að framfylgja siðasáttmálanum gæta starfsmenn að orðspori félagsins, stuðla að farsælum rekstri og ýta undir hið mikilvæga hlutverk sem vátryggingar hafa í samfélaginu.
Félagið hefur einnig lagt línur varðandi ábyrgar fjárfestingar þar sem litið er til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta við fjárfestingaákvarðanir.

Stefna um rekstur upplýsingakerfa er í gildi hjá félaginu sem hefur það að markmiði að stuðla að öruggu og traustu umhverfi viðskiptagagna. Stefnan byggir, ásamt öðru, á þeim trúnaði og heilindum sem félagið vill gæta gagnvart hagaðilum, þ.m.t. viðskiptavinum, hluthöfum og samstarfsaðilum. Þá hafa verið settar reglur um vinnslu persónuupplýsinga sem ætlað er að tryggja að félagið vinni samkvæmt persónuverndarlögum og í samræmi við góða viðskiptahætti.
Fyrri síða
Stefna
Næsta síða
Lykiltölur